Að mörgu er að hyggja þegar velja á GPS-tæki enda geta kaup á slíku tæki verið ansi dýr fjárfesting. Margt spánskt kemur fyrir sjónir við kaup á slíku tæki í fyrsta sinn og erfitt er að greina milli þess sem skiptir máli og hvað er óþarfa pjátur. Gildir þetta jafnt kaup á nýju tæki eða notuðu.
GPS-tæki þjóna tvennu hlutverki í ferðamennsku, annars vegar er það rötunartæki en hins vegar eru þau öryggistæki. Öryggishlutverk þeirra í ferðamennsku hefur aukist til muna eftir að byrjað var að selja GPS-tæki með innbyggðri inReach tækni. GPS-tæki ættu því alltaf að vera með í för þegar ferðast er um náttúru Íslands hvort sem um stuttar eða langar ferðir er að ræða, á láði eða legi.
Rétt er að benda á að það sem hentar einum hentar ekki endilega öðrum. í þessari grein verður reynt að aðstoða lesendur við að átta sig á því hvað hentar viðkomandi en ekki mæla með einu ákveðnu tæki.
Á Íslandi og í raun heiminum öllum hefur einn framleiðandi verið ráðandi á markaði, það er Garmin. Þessi ráð gilda um alla framleiðendur en myndir og skjáskot er öll af Garmin vegna þess hve erfitt er að komast í tæki frá öðrum framleiðanda.
Skjástærð og skjágerð
Hægt er að velja milli tveggja gerða skjáa, snertiskjás og snertilaus skjár.
Snertiskjáir eru um margt þægilegir og sniðugir í notkun enda þekkjum við vel að nota slíka skjái í okkar daglega lífi. Hafa skal í huga að helstu ókostir þeirra eru rafhlöðuending þeirra er mun lakar en tækja með snertilausum skjá. GPS-tæki með snertiskjá henta því síður í lengri ferðir eða ferðir að vetri til í miklum kulda. Kuldinn dregur hraðar úr rafhlöðu endingunni og oft þarf að rífa sig úr vettlingum til að stýra tækinu með fingrum. GPS-tæki með tökkum (snertilaus tæki) henta af þeim sökum betur í erfiðari og lengri ferðir vegna betri rafhlöðu endingu og hægt er að nota þau í vettlingum. GPS-tæki með snertiskjá henta betur í ferðir á sumrin og til að hafa í farartækjum, helst þar sem hægt er að hafa þau í sambandi.
Lengi vel voru snertiskjáir Garmin mun lakari en tíðkaðist í snjallsímum. Snertiskjáirnir voru svo kallaðir viðnámsskjáir sem eru ónákvæmari og erfiðari í notkun en tíðkast almennt með snertiskjái eins og eru í farsímum. Nýrri gerðir Garmin tækja sem eru með snertiskjá eru ekki lengur með viðnámsskjái heldur sambærilega því sem við þekkjum frá farsímum og því margfalt betri í notkun en eldri tæki. Varast skal að kaupa notuð eldri GPS-tæki frá Garmin sem eru með viðnámsskjá.

Rafhlöður
Rafhlöðuending GPS-tækja er alltaf að verða betri og betri. Á síðustu árum hefur Garmin svo komið með rafhlöðu sparandi stillingar sem kallast expedition modeı til að auka enn frekar á endinguna. Með því að virkja hana getur rafhlöðuendingin verið allt að 840 klst á einni hleðslu.1
Eitt af því sem hefur átt sér stað á síðustu árum er að GPS-tæki með útskiptanlegum rafhlöðum er að fækka og í stað þess eru tækin komin með innbyggðar rafhlöður sem ekki er hægt að skipta út. Nauðsynlegt er að vera meðvitaður við kaup á GPS-tækjum hvort er verið að kaupa og hvort að það kerfi henti ferðastíl hvers og eins. Huga þarf vel að því hvernig hlaða á GPS-tæki í ferðum og gera ráð fyrir því að taka með rafhlöður, hleðslutæki, eða hleðslubanka eftir því sem við á í hvert skipti.
Nýjasta þróunin er svo að Garmin er farið að fara eftir nýju Evrópureglugerðinni um að hafa USB-C tengi í stað USB-micro. Það er því vert að gæta að því að rétt snúra sé tekin með og ekki víst að allir í sömu ferð hafi sömu snúru.
Þyngd
Í löngum ferðum skiptir þyngd farangurs sem er tekinn með miklu máli. Þegar ferðast er um á tækjum s.s. bjóli, bíl eða vélsleða skiptir þyngdin ekki máli og því auðveldara að kaupa tæki með stórum skjá sem eru þyngri en göngutækin. Útivistartækin frá Garmin eru flest í léttari kantinum, sem dæmi má nefna að Garmin GPS 672 er u.þ.b. 230gr með rafhlöðu og Garmin eTrex32 er 142gr3.
Ef stefnt er á langa leiðangra er gott að hafa í huga hvað tæki ásamt auka rafhlöðum eða hleðslubanka eru þungt.

inReach
Hvað er inReach og er þörf á því? Mörg af nýjustu tækjunum sem eru að koma á markað hafa uppá að bjóða inReach tæknina. Í stuttu máli er inReach gervihnattasamskipti sem gerir notanda kleift að hafa samskipti við þá sem heima sitja með skilaboðum eða leyft einhverjum að vakta sig eða “tracka”. Einnig er hægt að senda út neyðarskilaboð.
inReach er mun betri kostur en Spot tækin sem þjóna svipuðum tilgangi. Samband Spot er mun stopulla en inReach.
inReach tæknin er sniðug og frábær viðbót í GPS-tækin. Fyrstu gerðir tækja sem voru með inReach þurftu þó að fórna einhverjum eiginleikum s.s. Multi-GNSS en svo er ekki í nýrri gerðum. Það er vert að hafa í huga við kaup á nýjum eða notuðum tækjum.
inReach er ekki ókeypis og þarf að kaupa mánaðaráskrift til þess að virkja eiginleika þess í tækinu. Ef ferðast er mikið á svæðum sem krefjast notkunar gervihnattasamskipta, að þá er inReach borðleggjandi val. EN ef slík ferðamennska er ekki stunduð er gott að staldra við og skoða aðra kosti.
Hægt er að kaupa sérstök inReach tæki sem eru bara inReach en ekki GPS–tæki.

Multi-band og Multi-GNSS
Á síðustu árum hafa Multi-band og Multi-GNSS orðið algeng í tækjum. Æskilegt er reyna að velja tæki sem bjóða uppá Multi-band og Multi-GNSS. En hvað er þetta?
Multi-GNSS4 er móttakari sem getur tekið merki frá mismunandi staðsetningarkerfum (GNSS) samtímis. GPS er eitt slíkra kerfa og er í eigu og umsjón Bandaríkjastjórnar, GLONASS er í eigu Rússlands og GALILEO er í eigu Evrópusambandsins, kerfin eru þó fleiri. GPS-tæki sem eru ekki með Multi-GNSS móttakara geta bara nýtt sér eitt kerfi í einu og flest eldri kerfi geta bara notað GPS kerfi Bandaríkjamanna.
Mulit-band5 kerfi notar fleiri en eina tíðni merkja frá hverjum gervihnetti ólíkt tækjum sem nota ekki multi-band sem nota bara eina tíðni. Með multi-band er hægt að draga úr skekkjum sem myndast í umhverfinu og auka þannig nákvæmni staðsetningar.
Kort
Ganga þarf úr skugga um að GPS-tækið styðji notkun korta. Óhætt er að fullyrða að yfirgnæfandi meiri hluti þeirra tækja sem seldur er í dag styðji kort. Aðkallandi er þó að vera á varðbergi gagnvart kaupum á eldri tækjum hvort að þau geti notað nýjustu kortin á markaðnum.
Kort í GPS-tæki koma ekki innbyggð og þarf að kaupa sérstaklega. Vinsælustu kortin í dag eru frá Samsýn sem Garmin umboðið selur og svo gpsmap.is.
Lokaorð
Með aukinni meðvitund um hvernig útivist maður stundar og hvaða þarfir GPS-tæki þarf að uppfylla eykur maður líkur á því að kaupa tæki sem hentar.
Hér að ofan eru útlistaðar veiga mestu þættirnir við val á GPS-tæki en þó er mörgu sleppt sem vegur ekki jafn þungt í ákvörðunartöku að mati höfundar. Eru það hlutir líkt og birdseye, rafeindaáttaviti, abc skynjarar og fleira sem vissulega er nytsamlegt og gerir tækið betra en er ekki einn stærstu ákvörðunarpunktunum við val á GPS-tæki. Ef stærstu punktarnir eru teknir saman þá eru það:
- Skjástærð tækisins
- Takkar eða snertiskjár
- Rafhlöðuending og rafhlöðugerð
- þyngd tækisins
- inReach
- Kort
Að lokum er vert að benda á að það er ekki nóg að velja rétta tækið. Nauðsynlegt er að gefa sér tíma í að læra á það og stilla tækið að sinni notkun og þörfum. Hvet ég þig lesandi til að skoða hvenær næstu námskeið eru á dagskrá.
Þessi grein er ekki kostuð af neinum. Ef þér líkar greinin og vilt styðja við gerð fleiri slíkra bið ég þig um að kaupa handa mér einn kaffibolla.